Minningarsjóðurinn Örninn tók við peningagjöf í Vídalínskirkju í dag 2.september 2018

Í fjölskyldumessu í Vidalínskirkju í dag afhentum við, fjölskylda Jennýjar Lilju, peningagjöf til Minningarsjóðsins Örninn. Nú í haust fara aðstandendur sjóðsins í annað sinn af stað með sumarbúðir fyrir börn og ungmenni sem hafa misst systkin eða foreldri.

Hægt er að lesa um verkefni Arnarins hér í frétt á mbl.is 

IMG_1954Á myndinni eru fjölskylda Jennýjar Lilju, Heiðrún Jensdóttir formaður Minningarsjóðs Örninn og Jóna Hrönn Bolladóttir sóknarprestur í Garðabæ.

Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka 2018

Dagurinn var bjartur og fallegur og augljóst að allir englar himinsins höfðu dregið skýjin frá, fylgst með fólkinu sínu og hvatt þau áfram.

Áheitasöfnun fór fram úr okkar björtustu vonum og endaði í rúmlega 750.000 kr !!

Alls hlupu 41 gleðigjafar fyrir Minningarsjóð Jennýjar Lilju. Hlaupararnir voru á öllum aldri og voru farnar vegalendirnar frá 600 m upp í heilt maraþon !

Daginn eftir hlaupið héldum við, fjölskylda Jennýjar Lilju, uppskeruhátíð þar sem öllum hlaupurum og fjölskyldum þeirra var boðið. Uppáhalds matur Jennýjar Lilju er Pulsa og því var við hæfi að bjóða uppá pulsu og ís. Veislan fór fram í húsnæði Brim Hf og viljum við nýta tækifærið og þakka þeim fyrir þeirra framlag í uppskeruhátíðinni.

Til ykkar allra sem hlupu með Jenný Lilju í hjarta og huga, þeirra sem gáfu áheit sín á hlauparana, þeirra sem stóðu á hliðarlínunni og hvöttu hlauparana áfram viljum við segja TAKK.

 

Jafningjaverkefni fyrir börn og unglinga hlýtur styrk að upphæð 500.000 kr

 

IMG_4020

Mynd tekin af foreldrum Jennýjar Lilju við gróðursetningu trés í minningarlundi látina barna í Skálholti 2017

Minningarsjóður Jennýjar Lilju hefur ákveðið að styrkja Minningarsjóðinn Örninn að upphæð 500.000 kr.

Hópur á vegum Vídalínskirkju í Garðabæ fór á vormánuðum upp í Kjós og buðu með sér 30 börnum og unglingum sem höfðu misst foreldri eða systkin, en það starf sem fór þar fram má lesa um í frétt sem birtist á mbl.is. Minningarsjóðurinn Örninn var stofnaður utanum þetta verkefni og er ætlunin að endurtaka sumarbúðirnar nú í haust. Sú upphæð sem Minningarsjóður Jennýjar Lilju leggur til verkefnisins mun tryggja að hægt verði að halda þessa samverustund í eitt skipti.

Við foreldrar Jennýjar Lilju höfum nýtt okkur hópastarf á vegum Nýrrar Dögunar fyrir foreldra sem hafa misst börn og hefur sá jafningjastuðningur hjálpað okkur mikið í sorgarferlinu. Við teljum því mikilvægt að styðja þetta verkefni og vonum að sem flest börn og unglingar geti nýtt sér þennan stuðning.

Helsta fjáröflunarleið Minningarsjóðs Jennýjar Lilju er áheitasöfnun í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka sem fer fram 18.ágúst 2018. Hér má finna slóð á síðu sjóðsins á hlaupastyrkur.is https://www.hlaupastyrkur.is/godgerdafelog/charity/572/minningarsjodur-jennyjar-lilju

Þann 2.september 2018 kl 11 er fjölskylduguðsþjónusta í Vídalínskirkju, þar sem börnin eru í öndvegi og verður styrkurinn formlega afhentur þar. Allir velkomnir !

Fyrir hönd Minningarjóðs Jennýjar Lilju

Rebekka og Gunni, foreldrar Jennýjar Lilju

Gjöf til starfsmanna leikskólans Austurkórs

image1Í dag 25.mai 2018 gaf Minningarsjóður Jennýjar Lilju peningagjöf til starfsmannafélags leikskólans Austurkórs. Systurnar Jenný Lilja og Dagmar Lilja voru nemendur við skólann og útskrifaðist Dagmar Lilja þaðan í dag.

Með gjöfinni vill fjölskylda Jennýjar Lilju þakka starfsmönnum fyrir allt sem þau hafa gert fyrir fjölskylduna og hversu vel þau hafa stutt við bakið á Dagmar Lilju eftir fráfall Jennýjar Lilju.

Meðfylgjandi myndir af systrunum er úr skólamyndatöku leikskólans árið 2015 (Jenný Lilja vinstra megin og Dagmar Lilja hægra megin)

IMG_7284.JPG

Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka 2018

Eins og á síðasta ári hefur Minningarsjóður Jennýjar Lilju skráð sig til leiks í hlaupastyrk fyrir Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka. Áheitasöfnun í kringum maraþonið hefur verið helsta fjáröflunarleið sjóðsins.

Það skemmtilega við að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu er að allir geta fundið vegalengd sem hentar þeim og á sínum hraða. Allt frá 3 km skemmtiskokki og uppí heilmaraþon eða 42 km.

Öllum er velkomið að skrá sig inn á hlaupastyrkur.is og safna áheitum fyrir minningarsjóðinn.

Gleðilegt nýtt ár

Nú höfum við kvatt árið 2017 sem var viðburðaríkt hjá Minningarsjóð Jennýjar Lilju. Við viljum þakka öllum þeim sem hafa sutt við bakið á sjóðnum á liðnu ári.

Þann 26.febrúar 2017 heimsóttum við Félag sjúkraflutningamanna á Suðurlandi og færðum þeim peningargjöf að upphæð 1.000.000kr. Með gjöf þessari vildum við, aðstandendur Jennýjar Lilju, þakka þeim fyrir aðkomu þeirra á slysstað þann 24 október 2015.img_2444

Þann 30 maí 2017 fékk hlaupahópur Jennýjar Lilju viðkurkenningu frá Birtu landssamtökum fyrir áheitasöfnun hópsins í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka árið 2016. Hlaupahópurinn safnaði 2.025.000kr til styrktar Birtu.

IMG_0049

Þann 22 júlí 2017 færði Minningarsjóður Jennýar Lilju, Björgunarfélaginu Eyvindi á Flúðum öndunarvél og súrefnismettunarmæli. Með gjöfinni vildum við þakka þeim fyrir aðkomu þeirra að slysinu. Tæk­in verða notuð í bíl vett­vangs­hóps björg­un­ar­félags­ins en hann kom fyrstur á slysstað þann 24.oktober 2015.

img_0310

Þann 19 ágúst 2017 fór fram Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka. Í ár tók Minningarsjóður Jennýjar Lilju þátt í áheitasöfnun í fyrsta skipti. Alls 45 einstaklingar hlupu fyrir Minngingarsjóðinn og voru þar hlauparar á öllum aldri. Eftir hlaupið var blásið til pylsuveislu fyrir alla hlaupara og fjölskyldur þeirra. Minningarsjóður Jennýjar Lilju vill færa Brim hf sérstakar þakkir fyrir stuðning þeirra þennan dag.

IMG_0463

Þann 20 des 2017 var gefið út lag í minningu Jennýjar Lilju. Lagið er sungið meistaralega af Stefáni Jakobsyni söngvara hljómsveitarinnar Dimmu. Fjölskylda Jennýar Lilju vill þakka Katrínu Ösp fyrir að halda minningu Jennýjar Lilju á lofti með fallega ljóðinu.

Textan við þetta fallega lag samdi Katrín Ösp Jónsdóttir og best er að nota hennar orð til að segja söguna á bak við textann og lagið.

Þann 24.október árið 2015 hringdi Hrabba systir í mig og sagði mér þær fréttir að Rebekka vinkona hennar hefði misst Jennýju Lilju þá þriggja ára af slysförum. Þann dag fannst mér sorgin áþreifanleg og ég gat ekki hætt að hugsa til Rebekku og fjölskyldunnar allar. Ég settist niður og skrifaði ljóðið Sorg. 
Ljóðið sat lengi í mér og ég gat ekki hætt að hugsa um það svo ég ákvað að senda gömlum skólabróður ljóðið og spurði hvort hann sæi fyrir sér að hægt væri að semja lag við það. Þessi skólabróðir minn, Stefán Jakobsson, var fljótur að svara, það yrði að setja vængi á þetta ljóð.
Gömul og góð vinkona mín, Rósa Ásgeirsdóttir, kom síðar til mín í kaffi þar sem ljóðið barst í tal. Meðan hún sat hjá mér kom lag upp í huga hennar, hún tók upp símann sinn og raulaði það inn. Nokkrum dögum síðar var komið uppkast af laginu okkar. Fúsi Óttarsson (frændi minn) trommari lagsins bauðst til þess að hafa samband við Kristján Edelstein (skáfrænda minn) og fá hann til að útsetja lagið fyrir okkur. Kristján tók lagið ljúfum höndum, spilaði á og bætti inn hinum ýmsu hljóðfærum og breytti laginu í drauma rokk- ballöðuna mína. Eftir að hafa klárað að útsetja hljóðfæraleikinn kom Stebbi Jak og söng með sinni kröftugu rödd af mikilli innlifun.
Foreldrar Jennýjar Lilju, þau Rebekka og Gunni, hafa valið nafn á lagið en það heitir Einn dag í senn.“

Á nýju ári stefnum við á að efla starf sjóðsins og þá sérstaklega að styrkja einstaklinga og fjölskyldur sem hafa misst unga ástvini í að leita sér aðstoðar. Hægt er að sækja um styrk hér á heimasíðu sjóðsins.

Nýárskveðja fyrir hönd Minningarsjóðs Jennýjar Lilju.

Rebekka og Gunni.

 

Einn dag í senn – Lag í minningu Jennýjar Lilju

Lagið Einn dag í senn varð til úr ljóði eftir Katrínu Ösp Jónsdóttur og er sungið af Stefáni Jakobssyni ( Söngvara Dimmu). Sögu lagsins má finna á síðu Karolina fund þar sem hafin er söfnun til styrktar minningarsjóðs Jennýjar Lilju.

Hægt er að kaupa lagið og fá það sent í tölvupósti að loknum söfnunartíma sem er 20 desember nk.

Fjölskylda Jennýjar Lilju er snortin yfir þessu framlagi í minningarsjóðinn og að þau haldi minningu Jennýjar Lilju svo fallega á lofti. Textinn lýsir vel þeim tilfinningarússíbana sem fjölskyldan hefur farið í gegnum í sorgarferlinu.

Hægt er að kaupa lagið HÉRJenný í Herjólfi

Minningarathöfn um fórnarlömb umferðaslysa

Í dag 19. Nóvember 2017 er alþjóðleg­ur minn­ing­ar­dag­ur um fórn­ar­lömb umferðarslysa og var þeirra minnst við minningarathöfn sem haldin var við þyrlupall bráðamót­töku Land­spít­al­ans í Foss­vogi í morg­un.

Þórir Guðmundsson ávarpaði samkomuna en hann missti tvíburasystir sína í umferðarslysi árið 2006. Hann talaði um að aðstoð frá góðu fólki hefði hjálpað honum að vinna úr áfallinu. Tilgangur minningarsjóðsins er m.a. að styrkja einstaklinga sem misst hafa ástvin á barnsaldri til að sækja sér aðstoð fagaðila.

Styrktarsíða minningarsjóðsins

vinur á þyrlu

Neyðarkall Björgunarsveita 2017

Hin árlega Neyðarkalla sala fer fram helgina 2-5.nóvember 2017.

Minningarsjóður Jennýjar Lilju hvetur alla landsmenn til að kaupa Neyðarkall og taka þannig þátt í uppbyggingarstarfi björgunarsveitanna í landinu.

23031501_1747954085215009_2426480354184352748_n

 

15 október tileinkaður barnsmissi og missi á meðgöngu

15.október ár hvert er dagur sem tileinkaður er barnsmissi og missi á meðgöngu. Þegar fjölskyldur verða fyrir því að missa barn tekur lífið nýja stefnu. Þessi nýja stefna er oft ferðalag yfir djúpa dali og mikið tilfinningaflóð sem fjölskyldan öll fer í gegnum. Það er mikilvægt að leita sér aðstoðar og leiðsagnar. Minningarsjóður Jennýjar Lilju styður fjölskyldur og ástvini sem misst hafa barn. Hægt er að sækja um styrk á heimasíðu sjóðsins www.minningjennyjarlilju.is/styrkir

IMG_4861

Mynd tekin á minningarstund um missi á meðgöngu og barnsmissi í Neskirkju 15 okt 2017