Áheitasöfnun heldur áfram.

Nú er orðið ljóst að Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka verður ekki haldið þetta árið. Hlauparar geta þó ennþá safnað áheitum og eru hvattir til að hlaupa sjálfir eða í litlum hópum þennan dag. 

Við fjölskylda og vinir Jennýjar Lilju höfum ákveðið að hlaupa þennan dag og halda áfram að safna áheitum sem renna til Landsbjargar.

Síðustu ár hafa hlauparar, sem hafa safnað áheitum fyrir Minningarsjóð Jennýjar Lilju, safnað tæpum 6 miljónum króna í áheitasöfnun á hlaupastyrkur.is sem hafa farið í góð málefni.

Það er hægt að leggja áheit á hlaupara sem hlaupa fyrir Minningarsjóðinn og um leið vera þáttakandi í að stofna sjóð sem meðlimir Lansbjargar geta sótt styrk í fyrir sálgæslu eða aðra aðstoð fagfólks. 

Við vitum öll hve mikilvægt starf björgunarsveita í landinu er. Nú er komið að okkur að leggja þeim lið því ávallt eru þau tilbúin að aðstoða okkur þegar við þurfum á aðstoða að halda. 

Hér er linkur á fallegasta hlaupahóp í heimi 😊 https://www.hlaupastyrkur.is/godgerdafelog/charity/988/minningarsjodur-jennyjar-lilju

Litið yfir árið 2019

Árið 2019 er á enda og nýtt ár tekið við. Þegar við lítum yfir árið er þakklæti okkur efst í huga. Fjölmargir hafa stutt við bakið á okkur og við höfum náð að styrkja góð og þörf málefni á árinu.

Vinur Jennýjar Lilju og þyrla Landhelgisgælunar

Í byrjun árs hélt pókerklúbburinn Bjólfur sitt árlega opna pókermót. Á mótinu gátu þátttakendur sett frjáls framlög í söfnunarbauk sem var ætlaður Minningarsjóðnum. Alls safnaðist 56.500 kr.  

Í apríl gaf minningarsjóðurinn þrjár loftdýnur til björgunarsveitarinnar Kyndils. Þessi gjöf var gefin eftir að einn liðsmaður sveitarinnar kom fram í viðtali og sagði sveitina vanta slíkan búnað. Loftdýnurnar eru hannaðar til að tryggja hámarks stöðuleika á ferð fyrir slasaða sjúklinga.

Á vormánuðum voru 56 hlauparar á fullum krafti í undirbúningi fyrir Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka . Þann 19 júní buðu foreldrar Jennýjar Lilju öllum hlaupurum á fyrirlestur með maraþon og ultrahlauparanum Sigurjóni Erni Sturlusyni. Hann fór yfir helstu þætti sem skipta máli í undirbúningi fyrir keppnishlaup og gaf hlaupurum góð ráð.

Stóra helgin , Reykjavíkurmaraþon Íslansdsbanka fór fram 24.ágúst 2019. Þennan dag hlupu 56 hlauparar fyrir minningarsjóð Jennýjar Lilju og söfnuðu áheitum. Hópur fólks stóð á hliðarlínunni og hvatti hlauparana áfram. Hvatningarstjórar sáu um að hlauparar fengju orku á miðri leið og klapp á bakið. Allir þessir aðilar stóðu saman og útkoman var áheitasöfnun sem skilaði sjóðnum. 1.671.000 kr.!!! Fyrir Reykjavíkurmaraþonið var minningarsjóðurinn búinn að setja sér það markmið að safna fyrir fjórum lyfjadælum fyrir þyrlusveit landhelgisgæslunnar. Það markmið náðist heldur betur.

Daginn eftir Reykjavíkurmaraþon buðu foreldrar Jennýjar Lilju öllum hlaupurum , hvatningarstjórum og fjölskyldum þeirra í pulsuveislu og partý enda tilefni til að fagna , faðmast og gleðjast yfir því sem hópurinn áorkaði í hlaupinu daginn áður.

Þann 13.nóvember fór fram afhending á tækjabúnaði til þyrlusveitar landhelgisgæslunnar. Þetta er stærsta úthlutun sjóðsins hingað til. Gjöfin samanstóð af fjórum lyfjadælum og tveimur vökva/blóðhiturum. Tækin munu koma sér vel þegar þarf að flytja slasaða og/eða veika einstaklega og þá sérstaklega börn.

Árið 2019 var viðburðaríkt og við viljum þakka öllum þeim sem studdu við starf sjóðsins. Allt þetta gerum við til að halda minningu Jennýjar Lilju á lofti í huga og verki. Fyrir það verðum við ávallt þakklát  

Rebekka og Gunni

Gjöf til þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar – stærsta úthlutun minningarsjóðsins

Miðvikudaginn 13.nóvember sl tók þyrlusveit Landhelgisgæslunnar við gjöf úr minningarsjóði Jennýjar Lilju. Gjöfin samanstóð af fjórum lyfjadælum og tveimur vökva/blóðhiturum. Þetta er tækjabúnaður sem var ákveðið að safna fyrir í samráði við lækna þyrlusveitarinnar, en tækin mun koma sér vel þegar flytja þarf slasaða og/eða veika einstaklinga og þá sérstaklega börn.

Lyfjadælur, tvær dælur eru saman í seti.

Við settum okkur það markmið að safna fyrir fjórum lyfjadælum, sem náðist heldur betur. Við höfðum því svigrúm til að bæta við tækjum og í samráði við Viðar, yfirlækni bráðaþjónustu utan sjúkrahúsa, stakk hann upp á bæta við vökva og blóðhitara. Upphæðin sem var umfram dugði fyrir einum hitara en okkur fannst fráleitt að það væri bara til eitt sett og bætti minningarsjóðurinn því við það sem vantaði upp á til þess að kaupa tvo hitara.

Upprenandi þyrluflugmaður, Mikael Ingi bróðir Jennýjar Lilju.

Aðkoma þyrlusveitarinnar að slysinu þegar Jenný Lilja lést og aðkoma hennar að fjölskyldu Jennýjar Lilju eftir slysið hefur verið einstök. Hlýja og virðing er það sem hefur einkennt störf þeirra og samskipti. Starfsmenn Landhelgisgæslunnar koma inn í líf fólks á erfiðustu tímum í lífi þeirra. Þeir sýna virðingu í aðstæðum sem skiptir öllu máli þegar maður lítur til baka.

Spekingar spjalla.

Við viljum þakka starfsfólki Landhelgisgælsunnar fyrir að vera fyrirmyndir og að starfa af virðingu við öll þau góðu störf sem þar fara fram

Frænka, tvíburasystir og vinkona Jennýjar Lilju.
This entry was posted on 16. November, 2019. 1 Comment

Af öllu okkar hjarta segjum við TAKK!!!

Við eigum ekki til nógu sterk orð til að lýsa þakklæti okkar yfir síðust helgi.

Hjartamynd 2019

Hér á myndinni má sjá hluta af þeim 56 hlaupurum sem hlupu fyrir Minningarsjóð Jennýjar Lilju og fjölskyldur þeirra í árlegri myndatöku við leiði Jennýjar Lilju í Kópavogskirkjugarði. Hópur fólks studdi okkur öll með áheitum og fjölmargir studdu hlaupara með hvatningu og klappi á sjálfan hlaupadaginn. Allt þetta gerði okkur kleift að ná markmiði okkar sem var að safna fyrir fjórum lyfjadælum fyrir þyrlusveit Landhelgisgæslunnar. Alls söfnuðust 1.671.000 kr sem er rúmlega markmiðið. Landhelgisgæslan er því að skoða tækjabúnað sem við bætum við, því við ákváðum að öll áheitin í ár færu í tækjakaup fyrir þyrlusveitina.

Daginn eftir Rekjavíkurmaraþonið buðum við, foreldrar Jennýjar Lilju , öllum þeim sem hlupu fyrir minningarsjóðinn, hvatningarstöðvarstjórum og fjölskyldum þeirra í pulsupartý. Uppáhalds matur Jennýjar Lilju eru pulsur og ís og því er matseðillinn í partýinu sjálfsprottinn. Okkur þykir vænt um þá stund sem við eigum með yndislegu hlaupurunum okkar, við fáum að minnast Jennnýjar Lilju , faðmast og gleðast yfir því sem við náðum að áorka í hlaupinu með Jenný Lilju í hjarta og huga.

Hlaupurum boðið á fyrirlestur

Miðvikudagskvöldið 19.júní s.l. buðu foreldrar Jennýjar Lilju þeim sem eru að undirbúa sig fyrir Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka á fyrirlestur með Sigurjóni Erni Sturlusyni maraþon og ultrahlaupara.

39453899_911726492359482_1642587281460035584_n
Mynd af facebook síðu Sigurjóns

Sigurjón fór yfir helstu þætti í undirbúningi fyrir keppnishlaup, hvort sem það væri 10 – 21 – 42 km sem fólk stefni á. Talað var um mikilvægi markmiðasetningu, mataræði, styrktarþjálfun og mikilvægi þess að teygja eftir æfingar og keppnir.

Mynd af facebook síðu Sigurjóns

Hann heldur út flottri facebook síðu sem er full af fróðleik og æfingum. Hann er líka mjög öflugur snapchat-ari (sigurjon1352) og er stundum að snappa frá keppnum sem hann er að taka þátt í.

Við viljum þakka Sigurjóni fyrir áhugaverðan fyrirlestur og hvatningu.

Minningarsjóður Jennýjar Lilju svarar ákalli Björgunarsveitarinnar Kyndils á Kirkjubæjarklaustri 

Föstudaginn 26. apríl gaf Minningarsjóður Jennýjar Lilju, Björgunarsveitinni Kyndli, þrjú loftdýnu sett (grjónadýnur) sem auðveldar sveitinni störf á vettvangi slysa. Eftir hörmulegt slys við Núpsvötn 27 des s.l. birtist viðtal við einn liðsmann sveitarinnar og kom þar fram að björgunarsveitum á svæðinu vantaði betri búnað til að bregðast við alvarlegum slysum sem þessu. https://www.mbl.is/frettir/innlent/2018/12/28/madur_bidur_bara_um_fyrirmaeli/
IMG_2790
Á myndinni eru Ingólfur Hartvigsson frá Björgunarsveitinni Kyndli og fjölskylda Jennýjar Lilju.
Minningarsjóður Jennýjar Lilju svaraði ákalli Björgunarsveitarinnar Kyndils á Kirkjubæjarklaustri og var ósk sveitarinnar að geta bætt við þremur settum af loftdýnum (grjónadýnum) í tækjakost sinn. Þessi sett eru frá Germa AB og eru dýnurnar hannaðar til að tryggja hámarks stöðugleika á ferð fyrir slasaða sjúklinga.
 
Eitt af markmiðum Minningarsjóðs Jennýjar Lilju er að styrkja viðbragðsaðila við tækja/ búnaðar kaup og lesa má meira um minningarsjóðinn á heimasíðu hans www.minningjennyjarlilju.is

Helsta fjáröflunarleið minningarsjóðsins er áheitasöfnun í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka. Nú í ár hleypur hópur fólks fyrir sjóðinn og safnar áheitum.

Bjólfur styrkir Minningarsjóð Jennýjar Lilju

Pókerklúbburinn Bjólfur hélt sitt árlega opna mót föstudaginn 11.janúar sl. Á mótinu gátu þátttakendur sett frjáls framlög í söfnunarbauk sem var ætlaður Minningarsjóði Jennýjar Lilju. Alls safnaðist 56.500 kr !

Við viljum koma á framfæri þakklæti til Pókerklúbbsins og þeirra sem tóku þátt í mótinu. img_2467img_2472

Minningarsjóðurinn Örninn tók við peningagjöf í Vídalínskirkju í dag 2.september 2018

Í fjölskyldumessu í Vidalínskirkju í dag afhentum við, fjölskylda Jennýjar Lilju, peningagjöf til Minningarsjóðsins Örninn. Nú í haust fara aðstandendur sjóðsins í annað sinn af stað með sumarbúðir fyrir börn og ungmenni sem hafa misst systkin eða foreldri.

Hægt er að lesa um verkefni Arnarins hér í frétt á mbl.is 

IMG_1954Á myndinni eru fjölskylda Jennýjar Lilju, Heiðrún Jensdóttir formaður Minningarsjóðs Örninn og Jóna Hrönn Bolladóttir sóknarprestur í Garðabæ.

Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka 2018

Dagurinn var bjartur og fallegur og augljóst að allir englar himinsins höfðu dregið skýjin frá, fylgst með fólkinu sínu og hvatt þau áfram.

Áheitasöfnun fór fram úr okkar björtustu vonum og endaði í rúmlega 750.000 kr !!

Alls hlupu 41 gleðigjafar fyrir Minningarsjóð Jennýjar Lilju. Hlaupararnir voru á öllum aldri og voru farnar vegalendirnar frá 600 m upp í heilt maraþon !

Daginn eftir hlaupið héldum við, fjölskylda Jennýjar Lilju, uppskeruhátíð þar sem öllum hlaupurum og fjölskyldum þeirra var boðið. Uppáhalds matur Jennýjar Lilju er Pulsa og því var við hæfi að bjóða uppá pulsu og ís. Veislan fór fram í húsnæði Brim Hf og viljum við nýta tækifærið og þakka þeim fyrir þeirra framlag í uppskeruhátíðinni.

Til ykkar allra sem hlupu með Jenný Lilju í hjarta og huga, þeirra sem gáfu áheit sín á hlauparana, þeirra sem stóðu á hliðarlínunni og hvöttu hlauparana áfram viljum við segja TAKK.

 

Jafningjaverkefni fyrir börn og unglinga hlýtur styrk að upphæð 500.000 kr

 

IMG_4020

Mynd tekin af foreldrum Jennýjar Lilju við gróðursetningu trés í minningarlundi látina barna í Skálholti 2017

Minningarsjóður Jennýjar Lilju hefur ákveðið að styrkja Minningarsjóðinn Örninn að upphæð 500.000 kr.

Hópur á vegum Vídalínskirkju í Garðabæ fór á vormánuðum upp í Kjós og buðu með sér 30 börnum og unglingum sem höfðu misst foreldri eða systkin, en það starf sem fór þar fram má lesa um í frétt sem birtist á mbl.is. Minningarsjóðurinn Örninn var stofnaður utanum þetta verkefni og er ætlunin að endurtaka sumarbúðirnar nú í haust. Sú upphæð sem Minningarsjóður Jennýjar Lilju leggur til verkefnisins mun tryggja að hægt verði að halda þessa samverustund í eitt skipti.

Við foreldrar Jennýjar Lilju höfum nýtt okkur hópastarf á vegum Nýrrar Dögunar fyrir foreldra sem hafa misst börn og hefur sá jafningjastuðningur hjálpað okkur mikið í sorgarferlinu. Við teljum því mikilvægt að styðja þetta verkefni og vonum að sem flest börn og unglingar geti nýtt sér þennan stuðning.

Helsta fjáröflunarleið Minningarsjóðs Jennýjar Lilju er áheitasöfnun í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka sem fer fram 18.ágúst 2018. Hér má finna slóð á síðu sjóðsins á hlaupastyrkur.is https://www.hlaupastyrkur.is/godgerdafelog/charity/572/minningarsjodur-jennyjar-lilju

Þann 2.september 2018 kl 11 er fjölskylduguðsþjónusta í Vídalínskirkju, þar sem börnin eru í öndvegi og verður styrkurinn formlega afhentur þar. Allir velkomnir !

Fyrir hönd Minningarjóðs Jennýjar Lilju

Rebekka og Gunni, foreldrar Jennýjar Lilju