Í dag afhentum við Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar tvö hjartstuðtæki/mónitora að andvirði 4.500.000 kr sem minningarsjóðurinn hefur safnað síðustu tvö ár úr hinum ýmsu áttum.
Hlaupahópur Jennýjar Lilju hefur safnað áheitum í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka og ásamt áheitasöfnun hefur minningarsjóðurinn fengið peningagjafir úr öðrum áttum. Þar ber að nefna minningarkort sem er hægt að nálgast í gegnum heimasíðu minningarsjóðsins. Einnig hafa borist peningagjafir frá einstaklingum og fyrirtækjum og við erum þeim ævinlega þakklát. Systurnar Eva og Tinna hönnuðu peysu í samvinnu við NoRom en peysurnar voru hannaðar með Jenný Lilju og systkinum hennar í huga. Hjörtun framan á peysunum tákna tvíburasysturnar og hjartablöðrurnar á erminni tákna sysktinin. 1000 kr af sölu hverrar peysu renna til minningarsjóðsins. Árlega heldur Pókerklúbburinn Bjólfur opið styrktarmót þar sem er hægt að leggja málefnum lið með frjálsum framlögum og síðustu tvö ár hefur Bjólfur safnað fyrir Minningarsjóð Jennýjar Lilju.
Við eigum starfsfólki þyrlusveitar landhelgisgæslunnar mikið að þakka og sú virðing sem þau sýndu okkur á slysstað og eftir slysið er ólýsanleg.






